Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 211/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 211/2022

Fimmtudaginn 7. júlí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2022, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 18. febrúar 2022. Í vottorði fyrrverandi vinnuveitanda kæranda kemur fram að honum hafi verið sagt upp vegna brots á vinnuskyldu. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 8. mars 2022, var kæranda boðið að veita skýringar á starfslokum sínum. Skýringar bárust stofnuninni samdægurs. Með ákvörðun, dags. 16. mars 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur hans felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. apríl 2022. Með bréfi, dags. 26. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 1. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að það eigi ekki við rök að styðjast að hann hafi verið valdur að uppsögn sinni og geri því kröfu um að það verði endurskoðað.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í júní 2021. Í ágúst 2021 hafi kærandi hafið störf hjá B sem starfsmaður á veitingastað fyrirtækisins. Starfið hafi verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar og ráðningarstyrkur hafi verið gerður vegna ráðningar kæranda hjá fyrirtækinu á grundvelli reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur þann 18. febrúar 2022. Vinnuveitandi kæranda hafi skilað vottorði á „Mínar síður“ stofnunarinnar. Þar komi fram að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 23. ágúst 2021 til 17. janúar 2022. Í vottorði frá vinnuveitanda segi einnig að kæranda hafi verið sagt upp störfum þar sem hann hafi ekki rækt vinnuskyldu sína. Þegar til uppsagnar hafi komið hafði kærandi ekki mætt til vinnu frá 27. desember 2021. Þá hafi kærandi verið veikur á löngum tímabilum og ekki mætt svo dögum og stundum vikum skipti á ráðningartímabilinu. Kærandi hafi gefið ýmsar aðrar skýringar á fjarveru, svo sem þær að hann hefði ekki sofið.

Með erindi, dags. 8. mars 2022, hafi kæranda verið boðið að skila Vinnumálastofnun skýringum á starfslokum sínum hjá B. Yfirlýsing frá kæranda hafi borist samdægurs. Þar segi að honum hafi verið sagt upp en að honum hafi ekki verið tjáð hver væri ástæða uppsagnarinnar. Með erindi, dags. 16. mars 2022, hafi umsókn kæranda verið samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda hafi réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta verið felldur niður í tvo mánuði, sbr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 17. mars 2022 hafi ráðgjafi Vinnumálastofnunar tekið viðtal við kæranda. Kærandi hafi tjáð ráðgjafanum að hann hefði ekki fengið útskýringar á uppsögninni. Honum hafi líkað starfið ágætlega en álagið hafi verið allt of mikið. Kærandi hafi oft misst úr vinnu vegna veikinda tengdum álaginu. Þann 20. apríl 2022 hafi kærandi skráð ný gögn á „Mínar síður“ Vinnumálastofnunar. Um hafi verið að ræða skjáskot af samtali vinnuveitanda og kæranda frá 17. janúar 2022 þar sem kæranda hafi verið tilkynnt uppsögnin. Í tilkynningunni hafi ástæða fyrir starfslokum verið sögð brot á ráðningarsamningi þar sem kærandi hafi ekki sinnt mætingarskyldu.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á.

Í 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ljóst sé að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá B vegna brota í starfi. Í vottorði vinnuveitanda komi fram að kæranda hafi verið sagt upp vegna lélegrar mætingar. Kærandi segi sjálfur að honum hafi verið sagt upp störfum og að hann hafi ekki fengið útskýringar á starfslokum sínum. Þó liggi fyrir að vinnuveitandi hafi tilkynnt kæranda um uppsögn og að ástæða fyrir starfslokum væri brot á ráðningarsamningi vegna þess að hann hafi ekki sinnt mætingarskyldu. Þá hafi komið fram af hálfu kæranda að honum hafi líkað starfið ágætlega en að álag hafi verið allt of mikið. Kærandi hafi misst úr vinnu vegna veikinda tengdum álaginu.

Við mat á því hvort umsækjandi um atvinnuleysistryggingar skuli sæta viðurlögum á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að líta til þess hvort viðkomandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á. Uppsögn kæranda megi rekja til brota á starfsskyldum hans gagnvart vinnuveitanda. Af fyrirliggjandi gögnum í málinu sé ljóst að kæranda hafi verið sagt upp vegna þess að hann hafi ekki mætt til vinnu og honum hafi verið ljóst hvers vegna vinnuveitandi hans hafi sagt honum upp. Þegar starfsmaður brjóti ráðningarsamning geti atvinnurekandi átt rétt á því að víkja honum úr starfi samstundis. Vinnusamband vinnuveitanda og launamanns byggi á gagnkvæmum skyldum. Helstu skyldur launamanna séu meðal annars þær að mæta stundvíslega til starfa. Þegar starfsmenn hverfi úr starfi án þess að tilkynna um forföll til vinnuveitanda eða mæti ekki til starfa eftir veikindi eða orlof sé um að ræða verulega vanefnd á starfsskyldum viðkomandi launamanns.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að háttsemi hans myndi leiða til brottvikningar úr starfi og að hann hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann hafi sjálfur átt sök á, sbr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hann hafi sjálfur átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Í skýringum fyrrum vinnuveitanda kæranda til Vinnumálastofnunar kemur fram að ástæða uppsagnar hafi verið mikil fjarvera kæranda frá vinnu. Kærandi hafi verið veikur yfir löng tímabil en einnig gefið aðrar skýringar á fjarveru sinni, svo sem svefnleysi. Í skýringum vinnuveitanda kemur enn fremur fram að við uppsögn kæranda þann 17. janúar 2022 hafði kærandi ekki mætt til vinnu frá 27. desember 2021.  Kærandi hefur vísað til þess að álagið í vinnunni hafi verið of mikið og að hann hafi verið frá vinnu vegna veikinda tengdum álagi í vinnunni.

Kærandi var mikið frá vinnu og hafði ekki mætt til vinnu frá 27. desember 2021 við uppsögn þann 17. janúar 2022. Að mati úrskurðarnefndarinnar mátti kæranda vera það ljóst að honum yrði sagt upp störfum ef hann sinnti ekki mætingarskyldu sinni. Það er því álit úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann bar sjálfur ábyrgð á. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum